miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Pysjuhópurinn

Um síðustu helgi hittist „pysjuhópurinn“ út á Hauganesi. Pysjuhópurinn er einvala-lið úr fyrrverandi Barnaskóla Íslands sem heimsótti okkur til Eyja árið 1994. Þá höfðum við það notalegt saman eina helgi, borðuðum lunda, drukkum rauðvín, fórum á pysjuveiðar, gengum á fjöll og ýmislegt fleira. Í fyrra bauð ég þessum hópi til mín í Sandvíkina til að rifja upp gömul kynni og áttum við saman yndislega kvöldstund í lok ágúst. Núna varð Birgir Sveinbjörns (sem var skólastjóri í BÍ '94) fyrri til og bauð hópnum til sín í Steinnesið en hann á einmitt sumarathvarf á Hauganesi rétt eins og ég. Það þarf vart að taka það fram að við áttum frábært kvöld saman og svo hittumst við bara að ári í Sandvíkinni. Skellti inn mynd af hópnum í fyrra!!

|

mánudagur, ágúst 22, 2005

Rósin frá Hildu

Hún Hilda mín færði mér rós í potti í tilefni nýja barnabarnsins í sumar. Það voru á henni einir 5 knúppar sem voru að byrja að springa út. Næstu dagana visnuðu þeir allir upp og duttu af og ég hélt að nú væri rósin að deyja. Hins vegar fór svo að rósin bætti á sig fullt af nýjum blöðum í staðinn fyrir knúppana og nú eru komnir á hana tveir knúppar og annar þeirra er nú útsprunginn og svo ljómandi fallegur.
Ástararþakkir Hilda mín :-)

|

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Tíminn æðir áfram

Jæja,jæja.....ekki mikið skrifað hér en nú verður bætt úr því.
Búin að fara suður og vera viðstödd skírnina hjá barnabarninu. Það gekk auðvitað ljómandi vel. Nokkrar myndir má sjá á myndasíðunni. Fórum suðurleiðina heim. Það var fínt, en veðrið hefði mátt vera betra. Þoka og lágskýjað mest allan tímann.
Nú er skólinn að fara á fullt. 3. árs nemarnir búnir að koma og eru nú farnir út í skólana og að byrja sitt vettvangsnám. Þetta er hress og duglegur hópur sem vonandi á eftir að spjara sig vel. ÞAð er svo von á fyrstu verkefnunum frá þeim eftir viku.

Það er búið að vera óvenju mikið um gleðskap hjá mér undanfarna viku. Hóaði hingað til mín nokkrum frænkum mínum úr föðurættinni í mat á þriðjudaginn var. Þær eru allar búsettar hér á Akureyri (og Hrísey) utan ein sem er þó hér í kennaranáminu. Við áttum notalega kvöldstund. Spjölluðum og hlógum mikið. Ákváðum að endingu að reyna að æsa restina af ættinni til að koma saman á ættarmót næsta sumar. Vonandi hefst að koma því í kring. Gunnlaug mín tók nokkrar myndir af fjörinu.
Á fimmtudaginn hóaði Hilda vinkona mín okkur nokkrum konum í „brunch“. Það var auðvitað bara ljúft og skemmtilegt. Alltaf svo notalegt að hittast bara „við stelpurnar“ og spjalla um heima og geima. Þúsund þakkir fyrir notalega stund, Hilda mín!!!
Á föstudagskvöldinu var ég svo í matarboði hjá Ingólfi Ásgeir vini mínum. Hann klikkaði nottlega ekkert á því frekar en fyrri daginn, drengurinn sá!!!Stjanað við mann frá A-Ö fram á rauða nótt.
Hjálmfríður vinkona mín (og skólastjóri barnaskólans) úr Eyjum heimsótti mig svo um helgina. Við áttum saman yndislega helgi. Fórum í Jólagarðinn og borðuðum ís í Vín, drukkum kaffi á Bláu könnunni, spókuðum okkur í góða veðrinu í bænum og eyddum peningum í búðarrápi. Alveg eins og ekta túristar :-) Gærkveldinu eyddum við svo við grill og rauðvín og svaml í heita pottinum í Sandvík. Ekki mjög leiðinlegt það!!!! Hún flaug svo til baka með kaffivélinni í dag.

Þetta er búið að vera ljúf helgi, en daginn í dag tileinka ég samt honum Frissa mínum, því við eigum 34 ára brúðkaupsafmæli í dag. Það er langur tími, að vera búin að nudda þetta saman gegnum súrt og sætt í öll þessi ár og merkilegt nokk nokkurn veginn vandræðalítið. Við erum að vísu ekki alveg jafn-ungleg í dag og á myndinni hér að neðan, en ekki munar nú miklu samt......he,he.....

|

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

„Versló“ búin og alvara lífsins framundan!!!

Jæja, þá er verslunarmannahelgi lokið þetta árið og nú er víst sumarfríi að verða lokið líka og ekkert nema brauðstritið framundan. Helgin var afskaplega notaleg hjá okkur. Vorum í Sandvíkinni með alla okkar fjölskyldu og áttum notalega og rólega daga. Tanja litla (nýja barnabarnið) kom meira að segja í heimsókn og var auðvitað knúsuð í bak og fyrir. Nú er hún byrjuð að brosa og allir keppast auðvitað við að kjá framan í hana. Um næstu helgi stendur til að skíra hana svo þá skreppum við suður. Aldrei að vita nema maður taki því rólega og fari lengri leiðina (austur-um) heim til baka, enda er maður nú víst ekki búinn með alla sumarfrísdaga þó maður sé byrjaður að vinna.
Ingvar móðurbróðir og konan hans komu í kvöld að sunnan og fá að gista í Sandvíkinni fram yfir handverkshátíðina, þannig að við verðum hvort sem er ekkert að dingla þar út frá næstu dagana.
|