sunnudagur, október 30, 2005

Sunnudagur

Það er nú ekki eins og ég hafi hugmynd um það hvað ég á að skrifa hér inn. Lífið er svona mest og best vinna, éta og sofa með fáum útúrdúrum. Var að klára síðustu vettvangsheimsóknina á föstudaginn og á miðvikudaginn koma kennsluréttindanemarnir mínir í fyrstu lotuna að þessu sinni. Hlakka til að hitta þá :-)
Einhvern veginn er þetta haust bæði langt og kalt og lítið fjör í manni. Maður er strax farinn að láta sig dreyma um sumarið og finnur til fiðrings þegar sólarlandabæklingarnir detta inn um dyrnar. Ekki það að ég hafi nokkurn tímann farið í venjulega sólarlandaferð. Býst ekki við að það eigi við mig að dorma í sólbaði á einhverri strönd.
En jú,...það er auðvitað hægt að gera ýmislegt fleira á þessum stöðum en liggja í sólbaði. Er því að spá í að skella mér kannski til Grikklands næsta sumar....allavega ætla ég að láta mig dreyma um það á meðan snjór og frost er úti :-)
Er að spá í að taka mér opinbert blogghlé smátíma...ég er hvort sem er svo löt við að blogga að það er alveg jafn gott að viðurkenna það bara og taka sér frí heldur en að gera þetta svona með hangandi hendi.Sjáum til!!!!
|

mánudagur, október 24, 2005

Að kvöldi kvennafrídags

Mikið ljómandi var nú gaman í dag. Konur á Akureyri og nágrenni fylltu Sjallan þannig að við lá að það flæddi út úr. Þetta var yndisleg dagskrá sem boðið var uppá. Allt auðvitað atriði sem konum sáu um. Kvennakór, óperusöngur og svo söng ung, gullfalleg stúlka frá Úkraínu (minnir mig) tvö lög. Nú svo voru auðvitað barátturæður í tilefni dagsins eins og lög gera ráð fyrir.
Í kvöld hringdi svo Jóna vinkona mín úr Eyjum til að deila með mér broti af þessum degi en við eyddum einmitt þessum degi smana fyrir 30 árum. Fórum saman í gönguna og á fundinn og svo í kaffi til mömmu á eftir. Henni fannst þessi dagur ekki mega enda öðruvísi en að heyra í mér. Notalegt að eiga svona vinkonu.
Við kjöftuðum ábyggilega í klukkutíma eða meira enda langt síðan við höfum spjallað saman. Það var ekki laust við að ég fengi smá snert af heimþrá að heyra í henni :-(
Verð að fara að drífa mig í heimsókn til Eyja!!!
|

sunnudagur, október 23, 2005

Ein vikan enn liðin

Ég hef lítið sinnt bloginu mínu undanfarið og er það svo sem ekkert nýtt. Æ, ég get bara ekki verið svona daglegur bloggari..„sorry“ :-)
Eftir Svíþjóðarferðina er búið að vera mikið að gera...ýmislegt sem sat á hakanum á meðan dvalið var þar. Nú eru 3. árs nemarnir á fullu í æfingakennslunni og þó mér finnist svo sem aldrei neitt sérlega gaman að lesa verkefni, þá er ekki annað hægt en hafa gaman af að lesa dagbækurnar þeirra núna. Það er svo margt sem þau eru að upplifa sem maður sjálfur jú þekkir eftir langan starfsferil sem grunnskólakennari. Þetta virðist ganga ótrúlega vel hjá þeim flestum.
Svo fer nú að styttast í að kennsluréttindanemarnir mínir komi í lotu og verður spennandi að byrja að vinna með þessum hóp. Nú er maður búinn að keyra þetta námskeið einu sinni áður og spennandi að sjá hvernig þessi hópur er miðað við í fyrra. Svo er maður sjálfur líka öruggari en í fyrra þegar maður er búinn að prufukeyra þetta einu sinni.
Að öðru leyti gengur lífið svona mest sinn vanagang, skin og skúrir...þó mestmegnis skin sem betur fer :-)
Já, það er nú það.......
|

fimmtudagur, október 06, 2005

Komin heim

Jæja, allt teku enda, líka Svíþjóðarferð. Áttum yndislega daga hjá Agnetu og Mats. Hittum allar konurnar sem voru með mér í Comeníusarverkefninu ásamt mökum þeirra eitt kvöldið. Þá var nú heldur betur glatt á hjalla :-)
Skoðuðum okkur svolítið um, fórum m.a. til Sigtuna, Uppsala og Norrtelje ásamt styttri túrum í kringum Tullen þar sem Agneta býr. Eyddum einum degi bara í Stokkhólmi og fórum svo það kvöld niður til Nynäshamn þar sem námskeiðið sem ég var á, var haldið. Ég sá nú ósköp lítið af þeim stað, því við vorum að vinna allan daginn, en Frissi gat skoðað sig svolítið um. Þetta er svona „skemmtibáta-staður“ í skerjagarðinum en verst var að það var búið að loka svo mörgum afþreyingarfyrirtækjum því það var orðið svo áliðið. Frissi fann t.d. engan stað þar sem hægt var að leigja skemmtibáta eða eitthvað slíkt. Ég skutlaði öllum myndunum í einni hrúgu (óflokkað)inn á myndasafnið mitt.
|