þriðjudagur, október 28, 2008

Frændur okkar Færeyingar

Þeir klikka ekki á því frændur okkar í Færeyjum. Nú ætla þeir að leggja fyrir þingið sitt að veita Íslendingum 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán. Spurður um þau skilyrði sem Færeyingar setji fyrir láninu segir Eidesgaard fjármálaráðherra Færeyinga að hann vilji að Íslendingar þurfi ekki að greiða vexti af láninu.
ÞAð er ekki ofsögum sagt að þetta er mikill höfðingskapur og vinarþel sem Færeyingar sýna okkur Íslendingum með þessu.
Ég hef einu sinni komið til Færeyja...það var í janúar 2005. Fór þá og kynnti fjarkennsluna okkar hér í HA fyrir kennurum í Föroyja Læraraskúli og hópi norrænna háskólakennara sem starfaði saman í Nordplus verkefni. Það var frábærlega vel tekið á móti mér og þessir 3-4 dagar sem ég stoppaði þar voru æðislegir, þrátt fyrir slyddu og skammdegi sem ríkti þessa daga. Síðan er ég búin að ganga með það í maganum að fara aftur til Færeyja...að sumri til...og dvelja þar lágmark í viku svo ég geti ferðast um eyjarnar og skoðað allt það helsta af þessari stórbrotnu náttúru sem þar er að finna og njóta alls þess sem, Færeyjar og Færeyingar hafa uppá að bjóða.
Læt mynd frá borðhaldi hópsins á færeysku veitingahúsi fylgja með. Eins og sjá má þá skemmtu færeyskir veitingahúsagestir okkur með færeyskum dansi undir borðum :-)


Og kannski er ekki út í hött á þessum síðustu og verstu tímum að láta áminningarskilti frá færeyskum banka fylgja með.

|

sunnudagur, október 26, 2008

Og enn snjóar...

Svei mér þá, það endar líklega með því að við drukknum í snjó hér fyrir norðan!!! Það virðist ekkert lát vera á þessum ósköpum..
Ætlaði í afmæliskaffi til Hildu í dag en hún hringdi áðan og sagðist vera búin að fresta afmælinu þar sem sennilega er ófært upp heimreiðina hjá henni. Ég verð bara að bíða með að heimsækja hana þar til síðar.

Ég fór í gær með Innbæingunum (Gunnlaugu og fjölsk) inn á Minjasafn að sjá dagskrána „Með ráð undir rifi hverju“ en þar var verið að bjóða upp á sýninguna „Hvað er í matinn“ með smá viðbót sem var smökkun á nýlöguðu skyri, súrsuðum sviðalöppum. lummum og pönnukökum og einhverju fleira. Þetta var ágætis tilbreyting í snjókomunni að skreppa þarna inneftir. Best fannst mér nú samt að fá að smakka söl...hef ekki keypt mér söl í mörg ár, held ég bara.....
Hringdi í gamla vinkonu í Eyjum í gær sem er að berjast við krabbamein. Veit að Guð hefur sennilega tilgang með öllu í okkar lífi, en get ekki annað en fyllst einhvers konar reiði yfir því þegar fólk á besta aldri þarf að mæta þessum örlögum. En ekkert okkar veit víst hver er næstur í þessu tilliti. Guð gefi henni og aðstandendum styrk til að takast á við þennan erfiða sjúkdóm. Þau eru öll í bænum mínum þessa dagana.
|

fimmtudagur, október 23, 2008

Hmmm...nýtt blogg!!

Það er nú langt síðan að skrifað hefur verið hér inn. En nú var Kristjana systir að skamma mig fyrir að blogga aldrei...(og ég sem hélt að enginn læsi þetta) þannig að það er best að athuga hvort mér tekst að halda lífi í þessu bloggi eitthvað áfram. Er nú samt ansi löt við svona skriftir þannig að enginn skyldi verða hissa þó þetta lognaðist út af aftur.
Héðan er allt gott að frétta. Veturinn kominn í öllu sínu veldi og svona var nú umhorfs er maður byrjaði að hreinsa bílinn sinn í morgun:

Það væri nú að bera í bakkafullan lækinn að minnast á ástandið í landsmálunum hér á Íslandi þannig að best er að sleppa því. Þetta er allt að fara til fj....hvort sem er :-)
Bjössi, Anna Lára og Tanja komu hér um síðustu helgi og áttum við notalega helgi saman fjölskyldan. Við fórum öll ásamt Gunnlaugu og strákunum (Daníel var í vinnuferð í Rvk) út í Laufás á laugardeginum en þar stóð Laufáshópurinn fyrir sýningu um haustverkin í gamla daga. Á heimleiðinni komum við svo við í Jólagarðinum. Um kvöldið borðuðum við öll saman hér í Hlíðargötunni og svo var öll hersingin í afmæliskaffi á sunnudeginum. Já, maður átti svo sem afmæli á sunnudaginn!!! :-)
Fékk meira að segja slatta af blómum og gjöfum, þó ekki væri þetta stórt afmæli.
Og svo er bara komin helgi enn á ný á morgun...verða komin jól áður en maður veit af!!!
|