laugardagur, janúar 20, 2007

Mismunandi menningarheimar

Las það í Blaðinu í morgun að einhver sendinefnd þingkvenna sem fór frá Íslandi til Saudi-Arabíu í byrjun janúar í opinbera heimsókn hafi öll hulið hár sitt slæðu að hætti múslima-kvenna.

Ég verð nú að taka undir þá skoðun Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar í þessari grein að mér finnst þetta algerlega út í hött og eiginlega bara óvirðing við jafnréttisbaráttu kvenna.

Mér finnst það alger óþarfi að gera slíkt til að láta í ljós einhverja „virðingu“ við gestgjafana í slíkum ferðum. Það er okkur ekki tamt að klæðast með þessum hætti og umburðarlyndið hlýtur að eiga að virka á báða bóga. Við hljótum að geta ætlast til að gestgjafar okkar beri virðingu fyrir okkar menningu og hefðum í klæðaburði alveg eins og við eigum að virða þeirra hefðir. Ég er ekki viss um að heittrúaðar múslimakonur myndu sleppa því að hylja sig slæðu þó þær kæmu í heimsókn til Íslands ef þær væru á annað borð vanar að klæðast þannig.

|

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Moggavefurinn

Á Moggavefnum í dag var þessi frétt:„Mikið óveður er nú skollið á í Þýskalandi. Varað hefur verið við því að
vindhraðinn geti náð 150 km hraða og ollið gríðarlegum skemmdum“.

Það var nefnilega það ...hann mun sem sé ekki valda skemmdum heldur olla skemmdum.

Þá vitum við það..... :-)

|