miðvikudagur, apríl 28, 2004

Þá er maður nú búinn að skreppa til Eyja og kominn aftur „heim í heiðadalinn“. Annars veit ég nú ekki alveg hvað mér finnst vera „heim“!! Er enn svolítið rugluð í tilfinningum mínum um það.....
Það var allavega alveg yndislegt að sofna fyrsta kvöldið með vindgnauðið á gluggunum og rigninguna beljandi bæði á gluggum og þaki. Vakna svo næst morgun við sönginn í mófuglunum...heiðlóuna, spóann og hrossagaukinn og einhverja fleiri....mjög heimilislegt.

Blessað fermingarbarnið (sonur Lilju systurdóttur) var tekið í kristinna manna tölu stór-áfallalaust og unir nú glaður við sitt. Þetta var mikil veisla. Allavega hefur örugglega enginn farið svangur frá borði...svo voru nú tertufjöllin stór!!

Hitti fullt af fólki, bæði ættingjum og vinum. Gaman að því!!!
Yfir og út :-

|

sunnudagur, apríl 18, 2004

Á Akureyri er búið að vora fjórum sinnum þetta árið.....hvenær skyldi sumarið koma???
Ég „fíla“ ekki alveg að fá þennan sérstaka vorfiðring margoft og vera svo kippt niður á jörðina með snjókomu reglulega þess á milli. Kannski bara kann ég ekkert að vita hvenær vorið kemur hér fyrir norðan!!!!

Í Eyjum var vorboðinn gargið í sjófuglunum þegar þeir voru að setjast upp í björgin til hreiðurgerðar og þessi sérkennilega fiskilykt sem stundum fannst um páskaleytið þegar vorvertíðin var í hámarki. Svo maður tali nú ekki um stillurnar í veðrinu sem oft voru yfirgnæfandi á vorin. Snjókoma aftur og aftur um miðjan apríl hefði ekki verið séns....

En jú....eitthvað grænt er nú víst farið að birtast á kræklunum sem sjást út um gluggana hér á Hlíðargötunni og farið að heyrast í einum og einum þresti....kannski það sé vorið!!Yfir og út :-
|

laugardagur, apríl 17, 2004

Páskarnir tóku auðvitað enda eins og allt gott!! Ekki var nú veðrið neitt spes en það hafðist nú samt að mála gluggana í Sandvíkinni að utan og nú er byrjað að mála þá að innan. Kallgreyið mátti vera með lambhúshettu og alles við að mála.
Þakka fyrir að honum var ekki bara stungið í „steininn“ eins og hverjum öðrum krimma, það hefur nú gerst hjá fólki fyrir minni sakir en vera að þvælast úti með lambhúshettu á hausnum!! ;-)Nú svo fengum við fullt af gestum í heimsókn, bæði menn og málleysingja!!Yfir og út :-
|

föstudagur, apríl 09, 2004

Jæja, þá er hún Hadda mín búin að fatta þetta með bloggið mitt....veit ekki hvort ég á að telja það gott eða slæmt!!!
Það var nú ekki alveg meiningin í byrjun að fara að vera einhver bloggari fyrir opnum tjöldum...en svona festist maður meir og meir í eigin vitleysu!! Verst að maður hefur aldrei neitt að segja.

Finn reyndar til samkenndar með Höddu núna þar sem hún situr sveitt yfir lokaritgerðum og öðru "ógeði". Rifjast upp fyrir mér síðastliðið vor þegar ég sat alla páskana við að klára að búa mastersritgerðina mína til afhendingar. Gott að það er frá!!

Sit reyndar aftur við núna þetta páskafríið að reyna að hnoða saman grein til birtingar í Netlu. Vil hafa hana þannig að hún teljist hæf til ritrýningar fyrst maður er að eyða tíma í þetta á annað borð!!En þetta flokkast víst undir sjálfskaparvíti svo það þýðir ekkert að vera með neinn barlóm!!

Það er þó allavega bót í máli að veðrið er ekkert spes (hitastigið um frostmark) þannig að það freistar ekkert sérstaklega til útiveru hér á Nesinu. Við "gamla settið" skruppum nú samt í pottinn seinnipartinn í gær þegar lygndi aðeins og höfðum það notalegt. Þá var "sá gamli" búinn að mála gluggana að utan og þeir þar með orðnir skjannandi hvítir. Ætlaði að droppa einni mynd hérna inn af herlegheitunum en komst þá að því að "fartölvu-beyglan" þó nýleg sé, er ekki með floppy-drifi, þannig að myndbirting verður að bíða betri tíma. Hallærislegt að taka floppy-drifið í burtu á þessum nýju fartölvum.

En svo koma nú ömmustrákarnir á morgun í heimsókn til okkar og frumburðurinn og tengdasonurinn. Þá verður nú glatt á hjalla "í koti karls" ;-)
Yfir og út :-
|

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Þið hafið auðvitað öll haldið að ég sæti föst í snjóskafli og gæti ekki skrifað??...en nei,nei...ekki er það nú alveg svo slæmt :-) Æ, ég hef bara ekki verið í neinu bloggstuði undanfarið....maður getur ekki almennilega bloggað þegar manni líður ekki neitt sérstaklega spes innan í sér..... Hef verið eitthvað ósátt við allt og ekkert undanfarið, og svo sem nóg að gera í öðru.

Er að mestu búin að fara yfir þau verkefni sem nemendur „mínir“í grunnskólafræðinni eru búnir að skila nú þegar. Nú er bara eftir að fara yfir loka-verkefnið hjá þeim þegar þau skila því. Er það ekki klikkað að finnast yfir 40 manna bekkur af harðfullorðnu fólki vera „sinn“. En svona er það nú samt!!! Mér finnst ég eiginlega bara alveg eiga þau...;-)
Kem til með að sakna þeirra þegar kúrsinn verður búinn!!! En kannski fæ ég eitthvað að koma nálægt þeim næsta vetur!! Hver veit!!!

Nú er búið að skipta um gler í öllum gluggum í Sandvíkinni og hvílíkur munur!!! Maður sér bara næstum yfir fjöll og firnindi!!
Og ekki má nú gleyma því að ég er búin að vera í sumarfríi í dag og verð líka á morgun!! Það er nú ekki amalegt að eiga inni sumarfrísdaga sem hægt er að bæta við páskafríið!!
Ekki það að ég sé að gera neitt af viti í þessu sumarfríi, en gott að fá þessa daga í ýmislegt sem setið hefur á hakanum undafarið!!
Yfir og út :-\
|