laugardagur, nóvember 20, 2004

Ertu nú ánægð??

Hilda vinkona mín var að skamma mig fyrir bloggleysi!!! Nú er ég búin að blogga þrem færslum á 1/2 sólarhring og segi því bara: „Ertu nú ánægð, kerling“ !!! :-)
|

To be or not to be....

Eins og alþjóð veit þá sendu kennara Brekkuskóla andlátstilkynningu vegna skólastefnu Akureyrarbæjar í Dagskrána í vikunni og sýndist sitt hverjum um það tiltæki. Ég ætla ekkert sérstaklega að hafa skoðun á því máli, aðra en þá ,að ég held að þetta hafi nú kannski verið gert án þess að málið væri hugsað til enda og ekki get ég tekið þetta sem neina móðgun við börnin eða forelda þeirra, því mér sýnist þessu hafa verið beint að skólayfirvöldum bæjarins fyrst og fremst.

Var samt pínulítið að velta fyrir mér málflutningi mannsins sem komið hefur fram í fjölmiðlum sem sjálfskipaður fulltrúi foreldar í þessu máli. Hann gagnrýnir kennara m.a. fyrir það að hafa beitt börnunum fyrir sig sem vopni í þessari kjarabaráttu og er svo sem ekki einn um það. Hins vegar hélt þessi sami maður börnunum sínum heima og sendi þau ekki í skólann í tvo daga, í mótmælaskyni við skólann og kennarana.
Hver var þar að beita börnunum fyrir sig sem vopni í einhverju áróðursstríði, spyr ég nú bara!!!
Æ, einhvern veginn flaug nú í gegnum huga mér Biblíu-spekin um „flísina, bjálkann og augað“ eða þannig :-/
|

föstudagur, nóvember 19, 2004

Fljótur að skipta um skoðun

Þessi var fljótur að skipta um skoðun á landinu okkar:

12. ágúst – Fluttum til Íslands að vinna. Settumst að fyrir austan. Ég er svo spenntur. Það er svo fallegt hérna, fjöllin eru dýrleg. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig þau líta út í vetur þegar það fer að snjóa.

14. október - Ísland er fallegasta land í heimi. Laufin eru öll rauð og appelsínugul. Sáum hreindýr í dag. Þau eru svo falleg. Það er svo kyrrlátt hérna, algjör paradís. Ég ætla sko að búa hérna það sem eftir er.

11. nóvember - Bráðum byrjar hreindýra veiðitímabilið. Ég get ekki ímyndað mér að einhver vilji drepa þessi fallegu dýr. Vona að það fari að snjóa. Ég elska þetta land.

15. nóvember - Það snjóaði í nótt. Þegar ég vaknaði var allt hvítt. Þetta er eins og póstkort. Við fórum út og hreinsuðum snjóinn af tröppunum og mokuðum innkeyrsluna. Fórum í snjóbolta slag (ég vann). Þegar snjóruðningstækið ruddi götuna, þurftum við að moka aftur. Ég elska Ísland!

22. nóvember - Meiri snjór í nótt. Snjóruðningstækið lék sama leikinn með innskeyrsluna okkar. Fínt að vera hérna.

15. desember - Enn meiri snjór í nótt. Komst ekki út úr innkeyrslunni og í vinnuna. Það er fallegt hérna, en ég er orðinn ansi þreyttur á að moka snjó. Helvítis snjóruðningstæki.

22. desember - Meira af þessu hvíta drasli féll í nótt. Ég er kominn með blöðrur í lófana og illt í bakið af öllu þessu moki. Ég held að gaurinn á snjóruðningstækinu bíði við hornið þar til ég er búinn að moka innkeyrsluna. Helvítis asninn.

24. desember - Gleðileg Jól, eða þannig! Enn meiri anskotans snjór. Ef ég næ í helvítis fíflið sem keyrir snjóruðningstækið, þá sver ég að ég drep helvítið. Af hverju salta þeir ekki helvítis göturnar hérna meira.

18. janúar - Meiri hvítur skítur í nótt. Búinn að vera inni í þrjá daga. Bíllinn er fastur undir heilu fjalli af snjó sem fíflið á ruðningstækinu er búinn að ýta að innkeyrslunni okkar. Veðurfræðingurinn spáði 20 cm jafnföllnum snjó næstu nótt. Veistu hvað það eru margar skóflur?

19. janúar - Helvítis veðurfræðingurinn hafði rangt fyrir sér. Við fengum 35 cm af skít í þetta skipti. Ef það heldur svona áfram þá bráðnar þetta drasl ekki fyrr en um mitt sumar. Snjóruðningstækið festi sig í götunni og helvítis fíflið kom og spurði hvort ég gæti lánað honum skóflu. Eftir að hafa sagt honum að ég væri búinn að brjóta sex í vetur við að moka í burtu snjónum sem hann ýtti jafnóðum inn í innkeyrsluna, munaði minnstu að ég bryti eina enn á hausnum á honum.

4. febrúar - Komst loksins út úr húsi í dag. Fór í búðina að versla og á leiðinni til baka hljóp hreindýr fyrir bílinn. Skemmdir upp á tugi þúsunda. Vildi að þessum kvikindum hefði verið útrýmt síðasta haust.

3. maí - Fór með bílinn á verkstæði í bænum. Ótrúlegt hvað þetta ryðgar af öllu þessu saltdrasli sem þeir strá á vegina.

19. maí - Flutti til Spánar. Skil ekki að nokkur maður með viti skuli vilja búa á skítaskeri eins og Íslandi!
|

Kjarabarátta kvenna

Veit ekki hvort ég á að nenna að minnast á kennaradeiluna....en alveg er það samt stórmerkilegt hvað alltaf er reynt að höfða til samvisku kvenna þegar svona hlutir eins og verkföll gerast (og svona er það búið að vera öll mín 30 ára grunnskólakennara-ár). Það er búið að hamra á því allt verkfallið hvað aumingja börnin eigi bágt (sem þau vissulega áttu) og hvað kennarar séu vondar manneskjur. Og ekki minnkar áróðurinn núna, eftir að skrifað var undir samninginn.

Nú er reynt með öllum ráðum að koma því inn hvað þetta sé nú obboðslega mikil hækkun og hvernig þetta gersamlega kollkeyri fjárhag sveitarfélaganna, svo mjög að jafnvel þurfi að segja upp öðrum bæjarstarfsmönnum svo hægt sé að borga kennurum laun. Það var svo sem auðvitað að enn ætti að reyna að að kenna kennurum um það sem miður fer í landsmálunum. Það er svo gaman fyrir þá að geta haft það á samviskunni ofan á alla mannvonskuna gagnvart börnunum, að heilu sveitarfélögin séu komin á hausinn!!!

Ég hef ekki mikið vit á sveitastjórnarmálum, en ansi held ég að þau sveitarfélög sem rúlla yfir núna vegna samninganna við kennara, hljóti að hafa staðið tæpt fyrir!!! Ég held það hljóti þá að hafa aðeins verið tímaspursmál hvenær þau hefðu rúllað hvort sem var!!
Ætli þessi áróður væri með sama hætti ef þetta væri karlastétt??
|

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Valash

Í þá góðu, gömlu daga var til „límonaði“ (gosdrykkur) sem hér Valash og var framleitt hér norðan heiða. „Húsbóndinn“ á mínu heimili :-) á enn þá til að segja í sjoppulúgum landsins: „ Ég ætla að fá eina Valash...“.
Það þarf vart að taka fram að aumingja unglingsstúlkurnar í sjoppunum horfa á hann í forundran og verða vandræðagangurinn uppmálaður...enda ekki nema von....Valash hvað!!!!

|

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Hafði ekki heppnina með mér

Jæja, ekki var heppnin með mér í þetta sinn. Búið að ákveða hvaða verkefni komust í úrslit í keppni Evrópska skólanetsins. En ég er nú ósköp sátt(þó gaman hefði verið að skreppa til Prag)....segi bara eins og íþróttahetjurnar: „um að gera að taka þátt, það geta ekki allir unnið“ !! :-)
|

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Styttist til jóla

Komst að því í dag í Jólagarðinum að það styttist all-verulega til jóla!!!Mér sem fannst eiginlega sumarið ekki búið..... enda var hér 18°stiga hiti um miðjan dag á laugardaginn.

|