mánudagur, júlí 26, 2004

Framkvæmdir

Eins og segir hér í fyrri færslum er ég búin að vera upptekin ...allavega svona inn á milli...í lóðaframkvæmdum í Sandvíkinni. Búið er að smíða 3 volduga gróðurkassa og koma fyrir á lóðinni. Tveir eru á lóðarmörkum og einn inni á sjálfri lóðinni, meðfram stéttinni. Innan við þá sem eru á lóðarmörkum var ég svo að útbúa steinabeð, því þetta er svo lítill flötur að það tekur því ekki að hafa gras á honum. Í steinabeðinu ætla ég svo að hafa einhverjar harðgerar skriðjurtir ef þær þrífast þar, ef ekki þá bara steinana. Líka útbjó ég steinabeð undir eldhúsglugganum því þar skín líka of lítil sól til ræktunar æðri plantna. Var meira að segja að spá í að setja einhverjar steinaskúlptúra þar og engin blóm ...(skúlptúrlistamaður óskast):-)

Á suðurlóðinni þar sem þriðji blómakassinn er held ég að gróður komi til með að þrífast ágætlega og verður gaman að sjá hvað lifir af því sem sett var (og verður) niður.

Í framtíðinni ætlum við svo að smíða fleiri svona blómakassa og nota sem hálfgerða girðingu meðfram tröðinni niður á gömlu bryggjuna.

Á laugardagskvöldið var, var svo haldið hið árlega „Halló Hauganes“....sem er sameiginlegt götugrill þeirra Haugnesinga. Það fór vel og friðsamlega fram að vanda eins og sjá á myndinni hér að neðan. Um miðnætti var svo kveikt í varðeldi og upp úr klukkan 2 fóru allir heim að sofa sáttir og sælir.

|

föstudagur, júlí 23, 2004

Erill í sumarfríi

Það er nú svo mkið að gera í sumarfríinu að maður má ekki einu sinni vera að því að blogga. Við, Daníel Freyr tengdasonur minn, brugðum okkur í Skagafjörðinn á þriðjudaginn var. Aðalmarkmið ferðarinnar var að skoða Austurdal en þar hafði Daníel verið í sveit sem barn, nánar tiltekið á Skatastöðum. Mig hafði alltaf langað til að sjá Merkigil þar sem „konan í dalnum og dæturnar sjö“ höfðu átt heima þannig að þessi markmið okkar Daníels fóru ágætlega saman. Aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu nú ekki áhuga fyrir að slást í hópinn sem við Daníel skiljum nú reyndar ekki alveg.

Það er skemmst frá að segja að dagurinn heppnaðist með afbrigðum vel. Að vísu urðum við að gefast upp á að komast inn að Ábæ þar sem bílinn spólaði í brekku á leirugum veginum og við ekki útbúin fyrir svaðilfarir og snerum þar af leiðandi við. En eins og ég segi stundum: „það er ágætt að eiga eitthvað eftir til að skoða seinna á hverjum stað...þá kemur maður frekar aftur“.

Þegar við komum til baka í Varmahlíð ákváðum við að skella okkur á Hofsós að skoða Vesturfarasetrið, en það var vitleysa af okkur því við vorum orðin það sein að við höfðum aðeins rúml. hálftíma til að skoða sýningarnar sem er náttúrulega allt of lítið, þannig að við verðum að fara aftur þangað seinna og skoða betur. Enda var alltaf meiningin að taka þetta í tveimur áföngum og við hefðum betur haldið okkur við það. En....það er jú alltaf ágætt að keyra á Hofsós og ekki svo langur útúrdúr frá Varmahlíð.....

Ég lofaði Hildu vinkonu minni sem spókar sig núna á Bahamas að setja inn mynd af okkur Daníel í upphafi ferðar með rauðu derhúfurnar sem við „fengum lánaðar“ hjá barnabörnunum mínum.  Tökum við okkur ekki bara vel út???? (ég ætla ekki að reyna að lýsa svipnum á Skagfirðingunum sem við mættum, þegar við vorum bæði búin að setja derhúfurnar út á hlið þannig að derið á annarri vísaði til vinstri en á hinni til hægri!!! :-) )


|

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Tilþrif í ræktun

Það er ekki laust við að maður sé hálf-aumur í skrokknum eftir að vera búin að vesenast í því í dag að koma mér upp 3 skrautkössum undir blóm og annan gróður í Sandvíkinni!!

Meira að segja löngu týndir vöðvar létu á sér kræla!!
|

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Sundlaugin á Dalvík

Alveg er hún hreint frábær sundlaugin hjá þeim á Dalvík. Er búin að fara þangað tvisvar núna með stuttu millibili og gef henni mín bestu meðmæli.....
|

Austfirðir

Síðasta daginn í ferðinni fórum við hring niður á firði. Við keyrðum niður Fagradalinn og niður á Reyðarfjörð og þaðan suður um á Fáskúðsfjörð, Stöðvarfjörð, og Breiðdalsvík. Við enduðum svo með að keyra Berufjörðinn (þar sem mínar rætur liggja)og út á Djúpavog. Ég held svei mér að Berufjörðurinn og umhverfið í kringum Djúpavog sé með því fallegra á landinu. Við keyrðum svo aftur upp á Hérað yfir Öxi og brunuðum svo til Akureyrar. Það var ekki dónalegt sólsetrið á Möðrudalsöræfunum og í Mývatnssveitinni!!!



Á Möðrudalsöræfum



Í Mývatnssveit
|

Í Fljótsdalnum

Einum degi eyddum við í Fljótsdal á Héraði. Þar var ég í sveit sem krakki, á Brekku, og þar er alltaf jafn yndislegt að koma. Ekki spillti veðrið fyrir, 25 stiga hiti. Við tjölduðum í skógargirðingunni á Brekku eins og við erum vön. Það er svona næstum eins og að vera kominn í Paradís þegar maður er kominn þangað í skjólið og hlýjuna og alla friðsældina. Við eyddum þarna heilum degi í sólbað og bíltúra um dalinn og ég náði að brenna í sólinni og varð eins og grillaður kjúklingur!!
Smiðurinn gekk jafnvel svo langt að fara úr ullarsokkunum og drífa sig í fótabað í Hölknánni. Bíræfið það!!!


|

Á Langanesi

Þó gist væri heima fyrstu nóttina í „útilegunni“, tókst nú að komast eilítið lengra í næstu atrennu. Keyrt var sem leið lá yfir alla Melrakkasléttuna og út á Langanes. þar var slegið upp tjaldi á Læknesstöðum, ættaróðali Frissa. Daginn eftir var svo keyrt alveg út á Font. Því miður var reyndar þoka fremst á Fontinum þannig að minna varð úr útsýninu en til stóð. Á Skoruvíkurbjarginu hittum við Rúnar Sigþórs og Gunnar Jónsson sem voru að leggja upp í göngutúr fyrir Fontinn....duglegir þeir!!!



Smiðurinn (og skátinn) búinn að tjalda á ættaróðalinu með minni hjálp.
|

mánudagur, júlí 05, 2004

Haldið af stað í útilegu

Við hjónakornin ákváðum um helgina að skella okkur í útilegu eitthvað austur á land í dag. Lögðum af stað eftir hádegið í sól og blíðskaparveðri með nánast allt okkar hafurtask nema blómapottana og straubrettið.....

Þegar við vorum komin út undir Víkurskarð datt sú hugmynd niður í kollinn á okkur hvort við ættum ekki að skella okkur út í Fjörður...eða Hvalvatnsfjörð....en þangað höfum við haft hug á að fara lengi. Við létum slag standa og brunuðum þangað út eftir og eyddum þar deginum fram á kvöld, og sjáum ekki eftir því.

Það var yndislegt veður og mjög fallegt þarna. Hægt er að kaupa veiðileyfi í Hvalvatnið sem kostar ekki nema 1500 krónur og er selt á Grenivík.

Það ótrúlega gerðist svo að þarna hitti ég eina frænku mína úr Eyjum, Helenu Hilmarsdóttur, sem reyndar býr núna ásamt manni og 3 börnum í Reykjavík. Þau voru þarna að njóta góða veðursins rétt eins og við. Höfðu byrjað sumarleyfið sitt um helgina og gist á Akureyri síðastliðna nótt og ætluðu að gera aftur í nótt en halda svo áfram austur á land í fyrramálið. Segiði svo að heimurinn sé stór.....

Við komum ekki aftur til byggða fyrr en um kl. 9:30 um kvöldið og þar sem svona áliðið var orðið ákváðum við að bruna bara inn á Akureyri og gista heima í nótt og halda svo bara áfram austur í fyrramálið....sem sagt smá pása í útilegunni!!!


|

sunnudagur, júlí 04, 2004

Fyrrverandi samstarfskona....eða þannig....

Siggu samstarfskonu minnar á upplýsingasviði segi ég......sem minnir mig á það að ég er ekkert lengur á upplýsingasviði, enda búið að flytja gagnasmiðjuna og mann sjálfan þá í leiðinni hreppaflutningi beint undir rektor.....Ef maður verður ekki lengur en ár í kennaradeildinni þá veit maður nú eiginlega ekki hvað tekur við hjá manni....það er ekki laust við að manni finnist maður vera hálf munaðarlaus þessa dagana....en kannski er það bara best, Lína langsokkur var nú líka munaðarlaus og bjargaðist vel!!!
|

Aðeins of sein

Skrapp til Hríseyjar í dag...(reyndar í gær, því það er víst komið fram yfir miðnætti). Var aðeins of sein til að ná Kræklingahátíðinni. Kíkti inn til Drífu frænku og Siggu samstarfskonu minnar á upplýsingasviði. Hún og hennar fjölskylda hafa komið sér upp skemmtilegum íverustað í eynni.....
|

föstudagur, júlí 02, 2004

Í Köben

Blessaður miðlungurinn ásamt spúsu sinni er nú staddur í Köben....hann sendi SMS í gær„Er á Strikinu“....það er nú það!!!!
|

Er ekki bara að koma sól??

Svei mér ef sólin er ekki bara að fara að skína....snilld :-)
|