Það er nú svo mkið að gera í sumarfríinu að maður má ekki einu sinni vera að því að blogga. Við, Daníel Freyr tengdasonur minn, brugðum okkur í Skagafjörðinn á þriðjudaginn var. Aðalmarkmið ferðarinnar var að skoða
Austurdal en þar hafði Daníel verið í sveit sem barn, nánar tiltekið á Skatastöðum. Mig hafði alltaf langað til að sjá Merkigil þar sem „konan í dalnum og dæturnar sjö“ höfðu átt heima þannig að þessi markmið okkar Daníels fóru ágætlega saman. Aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu nú ekki áhuga fyrir að slást í hópinn sem við Daníel skiljum nú reyndar ekki alveg.
Það er skemmst frá að segja að dagurinn heppnaðist með afbrigðum vel. Að vísu urðum við að gefast upp á að komast inn að Ábæ þar sem bílinn spólaði í brekku á leirugum veginum og við ekki útbúin fyrir svaðilfarir og snerum þar af leiðandi við. En eins og ég segi stundum: „það er ágætt að eiga eitthvað eftir til að skoða seinna á hverjum stað...þá kemur maður frekar aftur“.
Þegar við komum til baka í Varmahlíð ákváðum við að skella okkur á Hofsós að skoða
Vesturfarasetrið, en það var vitleysa af okkur því við vorum orðin það sein að við höfðum aðeins rúml. hálftíma til að skoða sýningarnar sem er náttúrulega allt of lítið, þannig að við verðum að fara aftur þangað seinna og skoða betur. Enda var alltaf meiningin að taka þetta í tveimur áföngum og við hefðum betur haldið okkur við það. En....það er jú alltaf ágætt að keyra á Hofsós og ekki svo langur útúrdúr frá Varmahlíð.....
Ég lofaði Hildu vinkonu minni sem spókar sig núna á Bahamas að setja inn mynd af okkur Daníel í upphafi ferðar með rauðu derhúfurnar sem við „fengum lánaðar“ hjá barnabörnunum mínum. Tökum við okkur ekki bara vel út???? (ég ætla ekki að reyna að lýsa svipnum á Skagfirðingunum sem við mættum, þegar við vorum bæði búin að setja derhúfurnar út á hlið þannig að derið á annarri vísaði til vinstri en á hinni til hægri!!! :-) )